fimmtudagur, 21. desember 2023

Rauðkál

 


Jólarauðkálið, hið eina sanna og hérna kemur uppskrift að heimagerðu Jólarauðkáli! 

Lykin af jólarauðkálinu sem mallar á eldavélinni setur svoldið jólin í húsið. Mögulega er það vegna þess að  þetta eitt af þessum verkum sem maður kýs að gera korter í jól. 

Persónulega finnst mér best að velja smáa rauðkálshausa þar sem blöðin í þeim eru fíngerðari og verða betri þegar búið er að saxa þau niður í strimla.  Ég er líka ekkert of sparsöm á ljót og þykk blöð utan á rauðkálshausunum og tek þá hiklaust af áður en ég saxa. Það eru jú jólin! 

Uppskrift

700 gr fínt saxað ferskt rauðkál 
50 gr smjör
50 ml rauðvínsedik 
50 ml Rubena saft (eða 3 msk rifsberjahlaup)
safi og rifið hýði af einni mandarínu 
3 msk sykur
1 stöng kanill
6 stk negulnaglar 
1 lárviðarlauf 
1/2 tsk salt 
1/4 tsk svartur pipar 


Aðferð

-Skerið hausana í tvennt og skerið rótina innanúr hausunum (sjá mynd) 
-Skerið hausana aftur í tvennt svo að þið eruð með 1/4 haus og saxið þá svo í strimla eins fínt og þið treystið ykkur í (þeir sem vilja geta notað gróft rifjárn eða matvinnsluvél með grófasta rifjárninu) 
-Steikið rauðkálið í smjöri á rúmlega miðlungs hita í 10 mínútur og hrærið á meðan
-Bætið öllum öðrum innihaldsefnum uppskriftarinnar útí og látið suðuna koma upp. Setjið lokið á og látið malla í 60 mínútur á lágum hita með lokið á. 
-smakkið til hvort ykkur finnist vanta sykur 

Setjið í krukkur og geymið í ísskáp. 
Mér finnst best að velgja rauðkálið örlítið áður en ég ber það fram. 

2 smári rauðkálshausar

Jólarauðkálssuppskrift
Skornir í tvennt og rótin skorin úr.

jólarauðkál
skornir í ferninga

Saxað í fíngerða strimla, annað hvort með hníf eða grófu rifjárni 

Rauðkál uppskrift
Bryjið á að steikja rauðkálið í smjöri í 10 mínúturi og bætið svo restinni útí, látið sjóða í 60 mínútur áður en allt er sett í krukkur sem lokast vel - geymist í ísskáp




SHARE:

þriðjudagur, 12. september 2023

Sítrónuformkaka


Við vorum svo lukkuleg að fá 3 sítrónur af sítrónutrénu okkar núna í lok sumars. 










Krakkarnir vildu ólm gera sítrónuköku svo við gerðum eina slíka. 

Ég deili hér uppskriftinni með ykkur og hvet ykkur til að fá börnin á heimilinu til að taka þátt í bakstri. Þessi kaka er frábær fyrir unga bakstursofurhuga þar sem það þarf einföld mælitæki (desílítramál, teskeiðar og matskeiðar) og þau fá að spreyta sig í að brjóta egg sem er alltaf spennandi áhættuatriði. 


Uppskrift

fyrir eitt form 


Kaka
2 egg 
2 dl sykur 
1 dl olía 
2 dl súrmjólk 
2 tsk lyftiduft 
2 msk sítrónusafi 
2 msk rifinn sítrónubörkur 
2 dl hveiti 
2 dropar af gulum matarlit

Glassúr 
3 dl flórsykur 
2 msk sítrónusafi 
vatn eftir þörfum
(Ath, það er nauðsynlegt að hafa þetta krem eins þykkt og hægt er) 


Aðferð 

-Stillið ofninn á 180°C og blástur 
-Hrærið saman olíu, eggi, sykri, sítrónusafa og súrmjólk
-Bætið saman við rifnum sítrónuberki, hveiti og lyftidufti, endið með að setja smá matarlit til að kakan verði gul.
-Setjið í smurt formkokuform.
-Baki í um 50 mínútur í miðjum ofni á blæstri eða þar til prjónn sem stungið er miðja kökuna kemur hreinn út (það fer aðeins eftir hve langt formið er, hve lengi það þarf að baka kökuna) 
-Látið kökuna kólna
-gerið glassúrinn og setjið hann með skeið yfir toppinn á kökunni, glassúrinn fletur sig sjálfur út og mun leka aðeins niður kökuna. 




SHARE:

þriðjudagur, 5. september 2023

Rúgbrauð

Rúgbrauðsuppskrift
Rúgbrauð

Sætt, kraftmikið og dökkt rúgbrauð. Alveg sturlað gott.

Ég baka stóra uppskrift, sker niður í kubba og frysti. Tek svo kubbana út þegar ég hef fisk í matinn eða þegar það er mikill brauðskortur í nesti fyrir krakkana í skólann. Þau satt að segja elska þetta með nóg af smjöri.

Þetta er ekki soðið brauð, en þetta er jafn gott. Það þarf ekki að setja þetta í mjólkurfernur, en það má. Einhversstaðar heyrði ég að mjólkurfernurnar væru ekki framleiddar með það í huga að þær séu hitaðar upp í 100°C og það sé mögulegt að það leki úr þeim "efni" inn í brauðið og þar með ákvað ég að ég myndi ekki þurfa að standa í þesskonar tilraunum með fjölskyldumeðlimi. 

Ég keypti mér Gastro-bakka og lok, eins og þessa sem notaðir eru á veitingastöðum. Þeir fást á ýmsum stöðum. Minn er að stærðinni 1/2. 

Þessa stærð að uppskrift að rúgbrauði er vel hægt að setja í stóru steikarpottana sem leynast á mörgum heimilum eða minnka um helming og setja í 2 formkökuform og álpappír yfir þegar það er bakað. 

Uppskrift 

600 gr rúgmjöl 
330 gr heilhveiti 
1150 ml súrmjólk 
200 gr púðursykur 
430 gr sýróp 
17 gr matarsódi 
13 gr salt 


Aðferð: 

-Aðferðin er ekki flókin. Allt er sett í skál og blandað saman. Sett í smurt form og lok eða álpappír settur yfir. 
-Mér finnst sjálfri gott að láta deigið standa í forminu í 30 mínútur áður en ég set þetta í form svo að rúgurinn og heilhveitið blotni vel áður en bakstur hefst.
-Bakist við 100°C 
-Sé all deigið bakað í einu formi, bakið það þá í 11 klst. Bakið þið það í smærri einingum, bakið það þá í 10 klst. 
-Ég set tímaniðurtalninguna af stað á ofninum og brauðið bakast yfir nótt hjá mér. Ofninn slekkur á sér þegar hann er búinn og okkar býður þá vanalega ylvolgt rúgbrauð á morgnana. 

Rúgbrauðsuppskrift
Öllum innihaldsefnum blandað saman 

Rúgbrauðsuppskrift
Deigsoppan tilbúin í bakstur. Mikilvægt að hafa lok eða álpappír yfir

Rúgbrauð  uppskrift
Nýbakað og volgt, skorið í kubba og svo fryst 
Rúgbrauð



Hlakka til að sjá rúgbrauðin ykkar! 


Njótið 



SHARE:

sunnudagur, 3. september 2023

Núðlur í sterkri sósu

 

Þennan rétt hef ég verið að gera í að minnsta kosti 3 ár. Þegar ég sest niður og borða réttinn hugsa ég allaf, oh, ég þarf að muna eftir því að skrifa niður hlutföll og innihaldsefni næst þegar ég geri þennan rétt. Hann er SVO góður.

Það er mögulegt að ég muni aldrei aftur gera þennan rétt á þennan veg sem ég er að leyfa ykkur að njóta hér fyrir neðan. Ég á ekki alltaf til mirin og ég á ekki alltaf brokkolí. Stundum hef ég sleppt kjúkling! :) 

og annað varðandi fjölbreytninga, það er hægt að nota hverskyns núðlur sem er, og það er hægt að nota rækjur eða nautakjöt í stað kjúklings. Mér finnst kjúklingurinn bara einfaldlega þægilegastur, á hann oft til og þetta er fullkomin leið til að gera máltíð þegar það er bara ein kjúklingabringa til! 

Ath, það er hægt að gera þennan rétt barnvænni með því að sleppa Siracha sósunni, já eða gera hann sterkari með því að bæta við Chilli olíu eftir á eða smá Sambal Olek útí marineringuna.

Sósan er hérna aðal stjarnan í réttinum. Hún er sæt, sterk og sölt, þekur grænmetið, núðlurnar og kjúklinginn vel og er eins og bragðsprengja í hverjum bita! 


Uppskrift: 

Fyrir 4

Marinering / sósa 

100 ml sojasósa
50 ml mirin 
3 msk hlynsíróp 
250 ml vatn 
1 tsk kjúklingakraftsduft / 1/4 teningur brotinn niður 
2 msk Siracha sósa 
4 hvítlauksgeirar rifnir 
3 cm kubbur engifer, rifinn

Til þykkingar á sósu
1 tsk maizenamjöl 
100 vatn

Núðluréttur

1 kjúklingabringa / 5 kjúklingalundir skorið í bita 
100 gr brokkolí 
50-60 gr gulrætur skornar í strimla 
skarlottulaukur skorin í strimla 
400 gr núðlur að eigin vali 

Til skreytingar:
Kóríander
vorlaukur (græni hlutinn) 
sesamfræ 
límóna

Aðferð: 

  • Setjið öll innihaldsefni marineringunnar í skál með niðurskornum kjúklingnum og látið standa í 30 cm á borði. 
  • Veiðið kjúklingabita úr marineringunni og steikið á heitri pönnu. Hellið safa sem fellur til í sósuna enda er hann stútfullur af kjúklingabragði og marineringu
  • Sjóðið núðlurnar. 
  • Setið marineringuna í pott og sjóðið í 5 mínútur, þykkið með maizena-vatnsblöndu.
  • Takið kjúklinginn af pönnunni og steikið næst grænmetið upp úr smá olíu. 
  • Blandið soðnum núðlum og kjúkling saman við grænmetið á pönnunni. 
  • Hellið sósunni yfir og blandið öllu vel saman, ekki hafa áhyggjur af því að finnast þetta þunnt, núðlurnar drekka vel í sig af sósunni. 
  • Setjið í diska og berið á borð. Hver um sig setur svo vorlauk, kóríander og sesamfræ að vild. 










 

SHARE:

þriðjudagur, 25. janúar 2022

Nautakjöt og brokkolí í asískri sósu

Uppáhald innan fjölskyldunnar og alltaf vinsælt. 


Dökk og sölt sósan með mjúku kjöti og svo slatta af hrísgrjónum sem drekka í sig umfram sósuna er það sem gerir algerlega punktinn yfir i-ið! 




Ég á alltaf mikið til af gúllasi inni í frysti og hef verið að skera það niður í strimla og nota í þennan rétt. 

Einnig er hægt að kaupa einhversskonar mínútusteik eða nota nautakjötsstrimlana sem fást frosnir í flestum búðum.  

Marineringin mýkir kjötið upp svo þetta þurfa ekki að vera bestu bitarnir til að þetta verði gómsætt og mjúkt.


Uppskrift (fyrir 4) 

Nautakjöt og marinering 

500 gr nautakjöt skorið í strimla 

1 tsk matarsódi (þetta mýkir kjötið, mjög mikilvægt) 

3 msk vatn 

1 msk matarolía 

1 msk ostrusósa 

2 tsk maizenamjöl 

Aðferð:

Öllu blandað saman og látið standa í 30-60 mínútur við stofuhita. 


Asísk Sósa. 

250 ml vatn 

1 msk kjuklingakraftur frá Oscars 

3 msk soyasósa 

2 msk ostrusósa 

1/2 msk sesamolía 

1/4 tsk hvítur pipar 

1 msk sykur 



Nautakjöt og brokkolí í asískri sósu 

Nautakjöt í marineringu 

Sósa

500 gr brokkolí skorið í bita 

2+2 msk olía 

2 hvítlauksrif - rifin eða kramin 

2 cm bútur af engifer, rifinn eða saxaður smátt 

Shaoxin vín (má sleppa - en það fæst í asískum búðum, þarft bara að biðja um það) 

Til að þykkja 

4 msk vatn 

2,5-3 msk maizenamjöl 

sósulitur (má sleppa)

ofaná: Sesamfræ, niðurskorinn vorlaukur og kóríander (má sleppa) 


Meðlæti

250 ml ósoðin hrísgrjón 

750 ml vatn 

1 tsk salt 

Soðið uppá í 2 mínútur og svo sett helluna niður í 2-3 og látið standa þannig í 20 mínutur, ALLS ekki opna pottinn á meðan. 



Aðferð: 

  • Steikið kjötið í skömmtum á pönnu í 2 msk af olíu þannig að það sé létt brúnað. Best er að gera þetta í nokkrum skömmtum svo kjötið sé að brúnast en ekki soðna á pönnunni, safnið svo steikta kjötinu og öllum safa i skál (kjötið þarf hér ekki að vera fulleldað í gegn, það gerir það seinna í ferlinu). 
  • Steikið létt á pönnunni hvítlauksrifin og engiferið í 2 msk af olíu. Hellið Shaoxin víni útá. 
  • Bætið brokkolíi, léttsteikið í 2 mínútur og bætið svo kjötinu og sósunni útá. Sjóðið við vægan hita í 5 mínútur
  • Til að þykkja sósuna er maizenamjöli og vatni hrært saman og sett útí sjóðandi sósuna og hrært vel saman við alveg í lokin. Ég set oftast smá sósulit útí sósuna einnig til að fá dýpri brúnan lit. 

nokkrir punktar: 
Frá byrjun til enda tekur aðeins um 25 mínútur að útbúa þennan rétt ef frá er dreginn tíminn sem tekur að setja kjötið í marineringu. 
Þetta hins vegar hentar ágætlega sem matur í miðri viku þegar komið er heim eftir vinnu. Að græja þá kjötið, láta það standa og svo setja grjónin yfir suðu á meðan allt annað er undirbúið og svo eldað.



SHARE:

mánudagur, 16. nóvember 2020

Risarækjur með tómata- og pestósósu

Vá. Þvílík dásemd sem þessi réttur var. 

Átti svo yndislegt nýbakað súrdeigsbrauð sem ég vildi nota til þess að drekka upp gómsæta sósu og datt í hug að búa til einhvernskonar rétt úr risarækjum sem ég átti til. 
Að öllu jöfnu hefði ég gert þennan rétt hérna sem ég geri afskaplega oft en það var eitthvað svo kuldalegt úti að mig langaði í kraftmikla og braðgmikla rjómasósu. 

Uppskrift:

 fyrir um 2 

ca 400 gr risarækjur 
3 msk olía 
200 gr kokteiltómatar 
5 sneiðar sólþurrkaðir tómatar skorið í teninga
2 hvítlausrif 
1 skarlottulaukur 
100 ml hvítvín 
1 msk rautt pestó (Philipo Berio)
1 msk fljótandi humarkraftur frá Oscars
200 ml rjómi 
fersk basilika, ca 10 blöð
rifinn parmesan (hver og einn setur yfir) 
salt og pipar 

Aðferð

  • Steikið rækjurnar uppúr 2 msk af olíu á heitri pönnu. Takið af og látið til hliðar 
  • Steikið því næst saxaðan hvítlauk, skarlottulauk, kokteiltómata, sólþurrkaða tómata í ca 3 mín, hækkið vel á pönnunni og hellið hvítvíninu útá (ég notaði hvítvín sem fæst orðið í flestum búðum eins og Krónunni og Bónus - það kemur saltað og piprað og er ekki ætlað til drykkju þó það sé áfengt) 
  • Leyfið þessu að sjóða hressilega í um 2 mínútur eða þar til að mesta hvítvínið hefur gufað upp. 
  • Látið 200 ml af rjóma útá, 1 msk af pestóinu og 1 msk af fljótandi humarkrafti. Ég þurfti ekki að salta þarna en bætti við smá pipar. 
  • Setjið rækjurnar útá
  • Sjóðið í 5 mín á vægum hita 
  • Skerið basilíkuna í strimla og hrærið samanvið 
  • Borið fram með nýbökuðu brauði sem notað er til að drekka í sig rjómasósuna og nýrifnum parmesan sem rifinn er yfir sósuna og rækjurnar þegar þær eru komnar disk hvers og eins.
Þessi réttur er virkilega fljótlegur (tekur ca 15 mín að útbúa) og það setja humarkraftinn útí sósuna færir sósuna á það stig að það yrði enginn ósáttur við að fá þennan rétt á veitingastað. 

Mæli með að þið prufið. 





psst. Hvernig væri að bjóða makanum á heimadeit og bjóða uppá þetta? ;) 


Punktar: 
-Hér má vissulega nota humar ef þið viljið
-Þessi sósa og rækjur henta unaðslega vel sem pastasósa. Sjóðið Tortellini og bætið saman við (sleppið brauðinu þá) Þessi skammtur af sósu ætti að henta 4 ef það er sett pasta samanvið
SHARE:

laugardagur, 14. nóvember 2020

Banana-og karamellubúðingur

Eftirréttur, eins og sá sem þú færð á veitingastöðum!

Silkimjúkur búðingur með karamellu-vanillubragði og svo leynast þarna óvænt bananar í botninum. 
Yndislegt alveg. 

Uppskrift 

(Fyrir 4 glös eða eftirréttaskálar) 

Í botninn: 

150 gr mulið digestive kex
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör 


Aðferð:  

blandið saman  (möluðu) kexinu sykri og smjöri og þrýstið blöndunni í botninn og örlítið upp í hliðar á 4 desertskálum eða glösum. Kælið í 30 mínútur

Í fyllinguna:


215 gr púðursykur
30 gr smjör
3 msk (30 gr) maizenamjöl
350 ml nýmjólk
1/2 tsk salt
4 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract
2-3 þroskaðir bananar

Aðferð:

  • Bræðið smjör og blandið því saman við púðursykur, setjið í skál. Setjið þetta svo til hliðar
  • Í bolla, hrærið maizenamjölið útí smá af mjólkinni. Í potti, hitið restina af mjólkinni með saltinu þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni útí. Sjóðið þar til blandan þykknar.
  • Hrærið eggjarauðurnar saman í skál og hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin. Hellið svo þeirri blöndu aftur útí heita mjólkina og hrærið þar til að blandan þykknar enn frekar (þetta endar á að verða svoldið eins og hrært majones.
  • Hellið/þrýstið blöndunni í gegnum sigti (ef ykkur kann að finnast þetta eitthvað kekkjótt) ofan í púðursykurblönduna, bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Sykurinn bráðnar. 
  • Skerið bananana niður í 5-6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn (ég notaði aðeins rúmlega 2 banana en það fer eftir smekk). Hellið blöndunni yfir bananana, geymið þetta í kæli í amk 2 klst áður en rjóminn er settur ofan á og borið er á borð. 
Kexið mulið 


kex-, smjör og sykur blandan sett í glösin og kælt




Allt að verða tilbúið til að setja saman blönduna í fyllingna



Fyllingunni hellt yfir bananana

Auka punktar:

  • Það er dásamlegt að setja karamellukúlukurl ofan á 
  • Það er líka æðislegt að setja smá vanillusykur útí rjómann þegar þið þeytið hann 
  • Það er hægt að geyma þetta í 2-3 daga í ísskáp ef þið sleppið að setja rjómann á og setjið plastfilmu yfir 
  • Það er hægt að hægelda eplabita uppúr smjöri, sykri, smá vanillu og kanil og setja í botninn í staðinn fyrir epli 
  • psst. þetta slær í gegn í matarboðum 



SHARE:

mánudagur, 9. nóvember 2020

Muffins með eplum

Mjúkar, bragðgóðar, einfaldar muffins. 

Fuuuuullkomnar fyrir þetta haust/vetrarveður sem læðist núna að okkur. 

Psst. Það næstbesta við þær (fyrir utan hve gómsætar, mjúkar og dásamlegar þær eru....) er að það þarf 2 skálar og eina sleif til að setja þetta allt saman. Engan handþeytara eða hrærivél frekar en þið viljið. 


Uppskrift:

Gerir 24 stórar muffins 


790 gr hveiti 
360 gr púðursykur 
1 tsk salt 
1 tsk matarsódi 
5 tsk lyftiduft 
400 gr grófbrytjuð epli 
500 ml súrmjólk
250 ml matarolía 
2 egg 
4 tsk vanillu extract (eða vanilludropar)

Krem: 

Flórsykur 
Mjólk 
Vanilludropar eða karamellubragðefni 
(magn af kremi ræðst af því hve mikið þið viljið setja á hverja muffins) 
-Ég notaði 2 bolla af flórsykri og hrærði hann út með mjólk þar til kremið var komið vel saman en þó frekar stíft. 

Aðferð: 

  • Setjið öll þurrefni saman í skál og blandið saman
  • Setjið öll blautefni saman í skál og blandið saman
  • Blandið öllu úr báðum skálum saman. Bara samt svo að það sé orðið vel blandað en ekki hræra lengur en það. Hér má nota vissulega nota hrærivél en þess þarf ekki. 
  • Grófbrytjið 4-5 epli og blandið saman við. 
  • Raðið muffinspappírsformum í muffinsbakka (nauðsynlegt) og bakið í ofni á 2 hæðum, á blæstri við 180°C í 25 mínútur 

Öll þurrefni sett í eina skál, öllum vökva blandað saman í eina skál


Öllu blandað saman 


Eplabitum blandað samanvið 


Sett í muffinsform og má fylla vel upp í topp. 



SHARE:

þriðjudagur, 19. maí 2020

Bananakaka á hvolfi með karamellu

Þessi kaka er himnesk. Stökkar hliðarnar eftir að smjörið bubblar á meðan hún bakast, mjúk og safarík karamellan sem umlykur safaríka bananana og svo ís til að toppa þetta allt er svolítið eins og himnaríki í köku verð ég að segja. 

Fyrir utan hve góð hún er þá tekur lítinn sem engan tíma að undirbúa hana þar sem öll innihaldsefnin hrærast saman í einni skál með sleif og svo er hún bökuð í hverskonar formi sem ykkur kann að láta ykkur detta í hug. 

Þó svo að ég notist hér við formkökuform þá má vissulega nota eldfast mót, lítið kringlótt form eða jafnvel baka þessa köku í pönnu sem má fara í ofn. 
Hún mun hvort sem er hvolfast á annan disk þegar hún er bökuð svo að formið sem hún bakast er aukaatriði. 



Uppskrift 

100 gr smjör, brætt
100 gr púðursykur 
2-3 bananar 

170 gr hveiti 
135 gr sykur 
1/2 tsk salt 
2 tsk lyftiduft 
1 tsk kanill 
3 msk matarolía
1 egg
1 tsk vanilluextract / dropar 
180 ml mjólk


Aðferð

-Bræðið smjör og blandið púðursykur saman við. Hellið í botninn á formkökuformi (það þarf ekki að smyrja formið áður
-Skerið bananana langsum í sneiðar og leggið yfir blönduna 
-Blandið restinni af innihaldsefnum saman í skál og hrærið með sleif þar til allt er vel blandað saman
-Hellið varlega yfir banana og bakið í 180°C heitum ofni á blæstri í 35 mínútur eða þar til kakan er karamellubrún að ofan
-Látið kökuna standa á borði í 15 mínútur eftir að hún kemur úr ofninum og hvolfið henni svo á disk.
-Borin fram volg með rjóma eða ís 

Setjið smjör og púðursykur saman í skál
Smjör og púðursykur sett saman í skál 
Smjör- og púðursykursblöndunni helt í botninn á forminu og bönunum raðað ofaná í botninn 

Þurrefnum, olíu, eggi og mjólk blandað saman í skál með sleif og svo helt yfir 

Þegar kakan hefur kólnað í 15 mínútur eftir að hún kemur úr ofninum er henni hvolft á platta eða disk svo að bananarnir sem voru í botninum séu nú efstir. 

ATH 

-Það er hægt að skipta út banönum í staðinn fyrir ananas, epli eða perur að vild. 
-Það má sleppa vanillu eða kanil ef þið eigið það ekki til 
-Rjómi er alveg jafn tilvalinn og ís 
-Ég setti Saltkaramellusósu frá Skúbb yfir ísinn.



Volg karamellu-kaka með banana og ís

SHARE:

fimmtudagur, 14. maí 2020

Ofnbakaður Camembert

Mmmmm

Bráðinn ostur, heitur, lekandi með dísætu hlynsýrópi!

Fullkomið fyrir datekvöld eða saumaklúbbinn. Já eða bara hvað-sem-er ! :)
Eftirrétt eftir grillið, kósíkvöld uppí sumarbústað, snarl uppí rúm seint um kvöld .... hvað-sem-er



Uppskrift 


1 camembert
2 msk hlynsýróp
2 msk muldar pekanhnetur
1 msk söxuð trönuber eða döðlur

Aðferð 


-Hitið ofninn í 200 gráður
-Skerið ofan í ostinn, 2/3 af leiðinni í gegn, skerið eins og þið væruð að skera eftir línunum í rúðustikuðu blaði :)
-Setjið 2 msk af hlynsýrópi yfir og bakið ostinn í 10 mínútur
-Takið hann út og setjið pekanhnetur og trönuber/döðlur yfir, bakið í 5 mínútur í viðbót.

Skerið í ostinn
Hellið hlynsýrópi yfir 

Ath 

Ég læt pekanhnetur og berin ekki vera allan tímann inni því ef þetta er allan tímann þá getur það ofeldast og orðið beiskt :) Þetta þarf aðeins að ristast en á alls ekki að brenna.





SHARE:
Blog Design Created by pipdig